Enski boltinn

Van Persie: Þetta var aukaspyrna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Robin van Persie kom Arsenal á bragðið í 3-0 sigri á Birmingham í ensku úrvalsdeildinni í kvöld með því að skora beint úr aukaspyrnu á 13. mínútu leiksins. Þetta var fyrsta mark Hollendingsins snjalla síðan í maí.

Robin van Persie fiskaði aukaspyrnuna sjálfur en mörgum þótti hann detta heldur auðveldlega eftir litla snertingu. „Það var snerting þannig að ég missti jafnvægið og datt. Þetta var pottþétt aukaspyrna," sagði Van Persie. Það má sjá markið með því að smella hér fyrir ofan.

„Birmingham er með frábært lið, þeir vinna vel inn á vellinum og hafa náð í stig á móti stóru liðunum. Við vissum það og allir í okkar liði lögðu sig fram fyrir hvern annan og við skoruðum nokkur góð mörk," sagði van Persie.

Alex McLeish, stjóri Birmingham, tjáði sig líka um aukaspyrnuna eftir leikinn. „Erlendu leikmennirnir detta stundum við litla snertingu en eftir að ég sá endursýninguna á brotinu þá virðist vera að einn varnarmanna okkar taki hann úr jafnvægi," sagði McLeish.

„Við vorum kærulausir á fyrstu fimmtán mínútunum og gáfum þeim nokkrar aukaspyrnur sem áttu ekki að vera dæmdar en okkar var síðan refsað úr aukaspyrnu sem var líklega réttmæt," sagði McLeish.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×