Innlent

Innan við 10% kennara eru konur

HA skrifar
Af áttatíu og fjórum kennurum við læknadeild Háskóla Íslands eru átta konur í kennaraliðinu og ein kona er prófessor við deildina. Konur sækja síður um stöður  skólans segir dósent við læknadeild. Þá kenna mun færri konur en karlar í deildum verkfræði- og náttúruvísindasviðs.

Í kvöldfréttum í gær greindi Dr. Molly Carnes sem rannsakað hefur  stöðu kynjanna í raunvísindum frá því að konum væri mismunað í vísindasamfélaginu en oft væri það ómeðvitað.  Skýringin væri helst byggð á stöðluðum ímyndum karla og kvenna og það bitnaði enn á konum í heimi raunvísinda að karlar hefðu ráðið þar ríkjum í marga áratugi.  En hver staðan hér heima? Tökum læknadeild Háskólans sem dæmi. Af áttatíu og fjórum kennurum við deildina eru átta konur í kennaraliðinu. Ein kona er prófessor, fimm eru dósentar og tvær lektorar. Konur eru engu að síður helmingur þeirra lækna sem hafa útskrifast síðustu 25 ár. Og hlutföll kynjanna er næstu jafnhá í hópi doktorsnema. Hver er þá skýringin?

„Það eru mjög fáar konur sem sækja um stöður. En ef þær sækja um stöður þá eru þær ekkert ólíklegri til að fá þær," segir Bryndís Benediktsdóttir, dósent við læknadeild Háskóla Íslands. „Það getur náttúrulega verið einhvers konar hugarfar til dæmis að það sé ekki sama hvatning til staðar fyrir konur að sækja um þessar stöður," bætir hún við.

Og ekki eru hlutföllin betri í deildum verkfræði og vísindasviðs Háskóla Íslands.

Af hundrað og átján manna kennaraliði eru tuttugu og tvær konur. Fimm þeirra eru lektorar, 9 dósentar og 8 prófessorar. Af starfsfólki Raunvísindastofnunar starfa tæplega fjörutíu konur en rúmlega sjötíu karlmenn. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×