Enski boltinn

Luis Suarez orðinn leikmaður Liverpool og fær sjöuna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luis Suarez.
Luis Suarez. Mynd/AFP
Liverpool hefur endanlega gengið frá kaupunum á Luis Suarez frá hollenska félaginu Ajax. Liverpool mun borga 22,7 milljónir punda fyrir Suarez eða um fimm milljarða íslenskra króna.

Luis Suarez hefur staðist læknisskoðun og er búinn að ganga frá samningi sínum við félagið. Hann skrifaði undir fimm og hálfs árs samning við félagið eða til ársins 2016.

Luis Suarez fær treyju númer sjö hjá Liverpool en Kenny Dalglish, núverandi stjóri Liverpool, gerði eins og þekkt er garðinn frægan í þeirri treyju þegar hann fór á kostum með Liverpool-liðinu frá 1977 til 1990.

Luis Suarez er 24 ára og 181 sm framherji sem hefur spilað með Ajax frá árinu 2007. Hann skoraði 110 mörk í 154 leikjum í öllum keppnum með Ajax þar af 49 mörk í 48 leikjum á síðasta tímabili.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×