Innlent

Rannsókn lögreglu hefur engu skilað

Fartölva fannst í varaþingmannsskrifstofu Alþingis fyrir ári. Hún hafði verið tengd tölvukerfinu í mánuð. Enginn veit hver á tölvuna.
 Fréttablaðið/GVA
Fartölva fannst í varaþingmannsskrifstofu Alþingis fyrir ári. Hún hafði verið tengd tölvukerfinu í mánuð. Enginn veit hver á tölvuna. Fréttablaðið/GVA
„Flest herbergi hafa verið opin og menn talið það í lagi. En nú verðum við að horfast í augu við það að við búum í breyttum heimi,“ segir Ásta R. Jóhannesdóttir, forseti Alþingis. „Okkar varnir höfðu fyrst og fremst snúið að utanaðkomandi árásum. Við höfðum ekki tryggt okkur nægilega fyrir því að einhver kæmist inn í húsnæðið og setti í samband tölvu. Nú er búið að efla þær varnir,“ segir hún.

Í ljós hefur komið að fartölva sem fannst í varaþingmannaherbergi Hreyfingarinnar á skrifstofum Alþingis 2. febrúar í fyrra var tengd við tölvukerfi Alþingis 28. desember 2009 og hafði því verið í stöðugu sambandi þegar hún fannst mánuði síðar. Engin merki eru um að gögn hafi verið flutt af henni.

Morgunblaðið greindi frá málinu á fimmtudag og var það rætt á Alþingi sama dag. Forsætisnefnd Alþingis fundaði um málið í gærmorgun með formönnum þingflokka, fulltrúum tölvudeildar Alþingis og lögreglu höfuðborgarsvæðisins.

Á fundinum var farið yfir málið. Þar kom fram að tölvan fannst fyrir tilviljun undir blöðum í herbergi Hreyfingarinnar sem sjaldan er notað þegar starfsmaður tölvudeildar Alþingis kom þangað til að ná í prentara. Netsnúra sem tengdist borðtölvu í herberginu hafði verið tekin úr sambandi og tengd við fartölvuna.

Alþingi greip til ráðstafana um leið og tölvan fannst. Af því sem starfsmenn tölvudeildar Alþingis mátu hafði tölvan ekki verið notuð til að hlaða niður gögnum af tölvukerfi Alþingis. Þvert á móti virðist hún hafa verið lítið notuð.

Engu að síður voru teknar myndir af skjá tölvunnar með farsíma áður en hún var tekin úr sambandi við tölvunetið og ákveðið að afhenda hana lögreglu til rannsóknar. Að því búnu var slökkt á tölvunni en talið er að við það hafi gögn á harða diski hennar sjálfkrafa eyðst.

Rannsókn lögreglu hefur ekkert leitt í ljós; engin gögn fundust í tölvunni, búið var að afmá öll auðkenni af henni og fundust á henni engin fingraför ef frá eru skilin fingraför starfsmanna tölvudeildar Alþingis. Af þessum sökum liggur enginn undir grun.

Fréttablaðið fékk engar upplýsingar um tölvuna þegar eftir því var leitað í gær. Stefán Eiríksson, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins segir tölvuna í fórum lögreglu og málið sé enn opið þótt rannsókn hafi lítið miðað. Myndir sem teknar voru af tölvunni eru jafnframt í fórum lögreglu.

jonab@frettabladid.is


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.