Erlent

Strokufangi í djúpum skít

Þegar lögreglan í Chicago náði loksins í skottið á strokufanga sem hafði verið á flótta eftir að hafa brotist út úr fangaflutningabíl þurfti ekki að segja honum að hann væri í djúpum skít. Hann var það nefnilega. Dagblaðið Herald-News greinir frá því að hinum 37 ára gamla Cesar Sanhcez hafi tekist að fara huldu höfði í nokkra klukkutíma. Leitarhundar voru kallaðir út og eftir nokkra leit runnu þeir á lyktina.

Sanchez hafði gripið til þess ráðs að troða sér ofan í ferðaklósett sem sett hafði verið upp nálægt þeim stað þar sem hann braust út úr bílnum. Þar beið hann á kafi í drullu og vonaðist til þess að sleppa þannig undan hinum langa armi laganna. Hundarnir létu þó ekki plata sig og Sanchez var gómaður.

Að sögn blaðsins varð síðan mikil rekistefna á meðal lögreglumannanna á staðnum hver þeirra ætti að flytja fangann á lögreglustöðina. Enginn vildi taka það að sér af skiljanlegum ástæðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×