Enski boltinn

Macheda á leið til Sampdoria

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Macheda í leik með ítalska U-21 landsliðinu.
Macheda í leik með ítalska U-21 landsliðinu. Nordic Photos / Getty Images

Umboðsmaður Federico Macheda segir það nánast frágengið að sóknarmaðurinn ungi sé á leið til Sampdoria á Ítalíu.

Macheda er á mála hjá Manchester United en vill fá að spila meira en hann hefur fengið að gera í ensku úrvalsdeildinni á leiktíðinni.

Hann var orðaður við nokkur félög á Englandi, til að mynda Everton og West Brom.

Um er að ræða lánssamning sem gildir til loka tímabilsins. „Það eina sem vantar er að ganga frá nokkrum formsatriðum. Ég vona að það verði klárað fyrir kvöldið," sagði umboðsmaðurinn Giovanni Bia í samtali við ítalska fjölmiðla.

„Framhaldið er svo undir United komið og þeir munu meta það hvort hann verði áfram á Ítalíu í eitt ár til viðbótar."

„En það er 99 prósent öruggt að hann fari aftur til United. Ég held að Alex Ferguson vilji fá hann aftur því hann telur Macheda vera stórefnilegan leikmann."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×