Lífið

Í fótspor Daft Punk

Danshljómsveitin Steed Lord var aðalnúmer raftónlistarhátíðarinnar Electronica Festival sem fram fór í Istanbúl um síðustu helgi. Að auki var tónlistarmyndband sveitarinnar notað til að auglýsa hátíðina á sjónvarpsstöðinni MTV.

Electronica Festival er haldin á þriggja ára fresti og fer fram á fallegri strönd skammt fyrir utan Istanbúl. Hljómsveitin Daft Punk var aðalnúmer hátíðarinnar árið 2008 og því þurfti Steed Lord að fylla í stór spor. Að sögn Svölu Björgvinsdóttur, söngkonu sveitarinnar, höfðu meðlimir hljómsveitarinnar aldrei komið til Tyrklands áður og því þáðu þau boðið á hátíðina með þökkum.

„Við erum með góðan aðdáendahóp hérna en vissum ekkert af því. Við spiluðum á besta tíma og fannst ótrúlega gaman enda er mikið lagt í hátíðina," segir Svala.

Meðlimir Steed Lord lögðu á sig þrettán klukkustunda flugferð frá Los Angeles, þar sem þau eru búsett, til Istanbúl og viðurkennir Svala að tímaskyn þeirra hafi ruglast talsvert við ferðalagið. Sveitin flaug svo aftur til Bandaríkjanna daginn eftir tónleikana þar sem þeirra beið vinna í tengslum við sjónvarpsþáttinn So You Think You Can Dance.

„Við þurftum að mæta í upptöku í sjónvarpssal fyrir So You Think You Can Dance því lagið Vanguardian verður notað í atriði sem Sonya Tayeh semur. Atriðið er sýnt í fyrsta þætti og við erum mjög spennt að sjá útkomuna. Annað lag eftir okkur verður svo notað í einum lokaþættinum," segir Svala og bætir við:

„Þetta er mikill heiður fyrir okkur því það horfa margar milljónir á þættina og lögin sem hljóma undir dansatriðunum fá mikla athygli." - sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.