Innlent

Verkfall hefði gríðarlegar afleiðingar

Formaður Rafiðnaðarsambandsins segir atvinnurekendum stríð á hendur. Verkfallsboðun um miðjan maí er nú raunverulegur möguleiki haldist afstaða SA óbreytt að mati ASÍ.

Mikillar reiði gætir nú innan aðildarfélaga ASÍ og hafa nokkur félög nú þegar vísað deilum sínum til Ríkissáttasemjara. Ef ekkert breytist á næstu vikum blasir við allsherjarverkfall upp úr miðjum maí.

Guðmundur Gunnarsson, formaður Rafiðnaðarsambandsins segir afleiðingar verkfalls gríðarlega alvarlegar. „Það er alveg klárt mál að þegar það færi að berast út núna um og eftir helgi að það standi til að boða allsherjarverkfall á Íslandi seinni partinn í maí mun það hafa mjög alvarlegar afleiðingar fyrir ferðamannaiðnaðinn, svipað og eyjafallagosið hafði."

Þá segir hann atvinnurekendur vel í stakk búna fyrir verkfall. „Þeir búa við það að eiga gríðarlega öfluga verkfallssjóði og þeir eru tilbúnir að slá frá sér og við erum tilbúnir til að gera það líka," segir Guðmundur sem bætir við að fullkomið stríð ríki nú á milli deiluaðila.

Gylfi á sama máli

Gylfi Arnbjörnsson framkvæmdastjóri ASÍ tekur undir með Guðmundi. Hann segir félagsmenn ASÍ reiðubúna til að fara í verkfall til að knýja fram kjarabætur á þessu ári. „Ég held að þetta hafi hreinlega gengið fram af okkur öllum, þetta hátterni atvinnurekenda, með hvaða hætti þeir hafa komið fram og að sama skapi það er búið að draga okkur hér á launahækkunum vikum og mánuðum saman og ekki efnt það sem þeir í það minnsta lofuðu okkur hér fyrr í vetur. Það hefur eiginlega bara gengið fram af okkur öllum."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×