Erlent

Rompuy telur ekki nauðsynlegt að breyta sáttmála ESB

Herman Van Rompuy forseti Evrópusambandsins telur að ekki sé nauðsynlegt að gera breytingar á Lisbon sáttmála sambandsins til þess að taka upp nýjar og hertar reglur um fjármálastjórn ríkja innan þess.

Hinum nýju reglum er ætlað að berjast gegn skuldakreppunni á evrusvæðinu. Álit Van Rompuy er að finna í skýrslu sem lekið hefur verið út en skýrsluna á að kynna á leiðtogafundi Evrópusambandsins sem hefst á morgun og stendur fram að helgi.

Bandaríkjamenn styðja fyrirhugaðar aðgerðir Evrópusambandsins. Timothy Geithner fjármálaráðherra Bandaríkjanna er nú staddur í Evrópu og mun eiga fund í dag með helstu leiðtogum evrusvæðisins. Geithner hvetur til frekari aðgerða til að örva hagvöxtinn í Evrópu samhliða hinum nýju reglum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×