Enski boltinn

Terry mátti ekki tjá sig um meint kynþáttaníð

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
John Terry á blaðamannafundinum í dag.
John Terry á blaðamannafundinum í dag. Nordic Photos / Getty Images
John Terry sat fyrir svörum á blaðamannafundi enska landsliðsins í dag en mátti ekki tjá sig um rannsókn sem nú er í gangi vegna ásakana um að hann hafi beitt Anton Ferdinand, leikmann QPR, kynþáttaníði.

Terry var sakaður um að hafa notað niðrandi orðalag um Ferdinand í leik Chelsea og QPR fyrir þremur vikum síðan. Málið er í rannsókn, bæði hjá enska knattspyrnusambandinu og lögreglunni í Lundúnum.

England mætir Svíþjóð í vináttulandsleik á morgun en blaðamönnum var ekki gefið tækifæri á að spyrja Terry um áðurnefnt mál.

Terry var ekki í byrjunarliði Englands gegn Spánverjum um helgina en búist er við því að hann verði á sínum stað í vörninni á morgun.

„Mér hefur aldrei fundist að ég sé öruggur með sæti mitt í byrjunarliðinu, hvort sem er hjá Chelsea eða enska landsliðinu," sagði hann en liðsfélagi Terry hjá Chelsea, Frank Lampard, bar fyrirliðaband Englendinga í leiknum um helgina.

„Við erum allir að berjast fyrir sæti okkar í hverjum einasta leik. Maður tekur því aldrei sem sjálfgefnum hlut að fá að spila með enska landsliðinu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×