Erlent

Sarkozy að ná því sem Napóleon dreymdi um og De Gaulle barðist fyrir

Napóleon dreymdi um það, De Gaulle barðist fyrir því en Nicolas Sarkozy gæti verið að ná markmiðinu, sem er samband Evrópuþjóða með Frakkland undir stýri, en Bretland á hliðarlínunni.

Þannig hljóðar upphafið á greiningu Reuters á leiðtogafundi Evrópubandalagsins fyrir helgina. Þar segir að Nicolas Sarkozy Frakklandsforseti standi uppi sem sigurvegari fundarins. David Cameron forsætisráðherra Bretlands er hinsvegar sá sem tapaði mestu.

Ákvörðun Cameron um að halda Bretum fyrir utan samkomulagið á fundinum, hefur mælst vel fyrir í Bretlandi en í heimi alþjóðastjórnmála er hún pólitískt sjálfsmark af stærri gerðinni að mati Reuters. Bretland standi eftir einangrað í Evrópu en það er nokkuð sem fyrirrennarar Cameron í embætti reyndu allt til að forðast.

Staðan er aftur á móti langþráður draumur Frakka og raunar hornsteinninn í pólitískri stefnu þeirra frá valdatíma De Gaulle sem er að einangra Breta og minnka áhrif þeirra á meginlandi Evrópu. De Gaulle taldi að Bretar ættu ekki heima í Evrópusambandinu og barðist af krafti gegn aðild þeirra á sínum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×