Fótbolti

Blatter á von á að HM 2022 fari fram um vetur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / AFP
Sepp Blatter, forseti FIFA, hefur staðfest að líklegt sé að HM í Katar árið 2022 muni fara fram að vetri til. Yrði það í fyrsta sinn sem heimsmeistarakeppnin í knattspyrnu yrði ekki haldin yfir sumarmánuðina.

Síðan það var tilkynnt í byrjun desember síðastliðins að HM yrði haldið í Katar hafa margir stigið fram og sagt að það væri einfaldlega ekki hægt að spila í þeim hita sem er yfirleitt í þessum heismhluta yfir hásumarið.

Blatter hefur sjálfur sagt að hann sé ekki mótfallinn því að láta HM fara fram að vetri til og hann á von á að það verði raunin.

„Við höfum tíma til að skoða þetta mál nánar enda ellefu ár þar til að keppnin verður haldin. Við verðum að ákveða hvaða mánuður hentar best - annað hvort janúar eða í lok ársins."

HM 2014 fer fram í Brasilíu og keppnin verður haldin í Rússlandi fjórum árum síðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×