Lífið

Vinirnir negldu fyrstu æfinguna í Düsseldorf

„Núna er verið að skoða tæknilegar aðfinnslur og sviðsmyndina, hvaða litir og hvaða myndir eigi að birtast á meðan við spilum en fyrsta æfingin gekk vel og við negldum hana bara," segir Hreimur Örn Heimisson, einn meðlima Vina Sjonna.

Þeir eru búnir að taka sína fyrstu æfingu í höllinni í Dusseldorf og líst ákaflega vel á alla umgjörð. Félagarnir voru í gráum vestum og gallabuxum en hægt er að sjá myndband frá æfingunni hér fyrir ofan.

Hópurinn kom til Dusseldorf á sjálfan verkalýðsdaginn og þótt Eurovision sé oftar en ekki kölluð glyshátíð þá er mikið rokk og ról í kringum íslenska hópinn. „Við vorum nokkrir sem vorum að spila til klukkan þrjú og fjögur aðfaranótt sunnudagsins," útskýrir Hreimur en hópurinn átti að vera mættur í Efstaleitið klukkkan fimm þann morgun. „Benedikt var að spila með Todmobile og ég og Pálmi vorum með Pöpunum á Players."

Í dag, þriðjudag, er síðan skipulagður frídagur og þá hyggjast nokkrir eyða þeim tíma í golf á nærliggjandi velli. „Við ætlum að fá okkur bjór og steik í kvöld [gærkvöld] og slaka aðeins á." Hópurinn er vel græjaður og fengu svokallaðan Jam Hub að láni frá Tónastöðinni.

„Þetta gerir okkur kleift að æfa í fullkomnu sándi uppá hótelherbergi," segir Hreimur en sjálf generalprufan verður á föstudaginn. „Hérna er allt eins og það á að vera og Þjóðverjinn stendur svo sannarlega undir nafni."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.