Erlent

St Petersburg er daprasta borgin í Bandaríkjunum

Borgin St Petersburg í Flórída er daprasta borg Bandaríkjanna. Sú hamingjusamasta er aftur á móti Honolulu á Hawai-eyjum.

Þetta kemur fram í nýrri rannsókn sem unnin var af Men´s Health tímaritinu. Þeir þættir sem tímaritið lagði til grundvallar því að meta depurð eða hamingju í 100 af borgum Bandaríkjanna voru meðal annars sjálfsmorðstíðni, atvinnuleysi og hve hátt hlutfall borgarbúar notuðu þunglyndislyf að staðaldri.

Önnur daprasta borg Bandaríkjanna er Detroit þar sem mikið atvinnuleysi hefur hrjáð borgarbúa árum saman. Athygli vekur að af tíu döprustu borgum Bandaríkjanna eru þrjár í Flórída sem kallað hefur verið sólskinsríkið vestan hafs. Auk St Peterburg eru þetta borgirnar Miami og Tampa.

Næst á eftir Honolulu sem hamingjusamasta borgin er Manchester í New Hampshire og þar á eftir kemur Fargo í Norður Dakóta.

Listinn með döprustu borgunum hefur vakið upp mikinn úlfaþyt meðal fjölmiðla í þessum borgum sem keppast við að finna eitthvað að þessari könnun og benda á jákvæða þætti á sínum heimavelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×