Erlent

Fyrsta kossinum sjónvarpað um allan heim

Bandaríski raunveruleikaþátturinn The Virgin Diaries var frumsýndur í gær. Þátturinn er afar umdeildur enda er viðfangsefni hans tilhugalíf óspjallaðra einstaklinga.

Þátturinn hefur vakið hörð viðbrögð í Bandaríkjunum og eru framleiðendur hans gagnrýndir fyrir að vera of nærgöngulir. En þrátt fyrir misjafnar viðtökur var fyrsti þáttur seríunnar gríðarlega vinsæll.

Í þættinum var fylgst með tveimur óspjölluðum einstaklingum, þeim Ryan og Shanna, og aðdraganda brúðkaups þeirra. Áhorfendur fá að fylgjast með hugleiðingum þeirra um brúðkaupsnóttina. Bæði hafa ákveðnar hugmyndir og væntingar til fyrstu kynlífs reynslu sinnar.

Ryan hefur aldrei kysst aðra manneskju og segist hlakka mikið til að kyssa konu sína. Þegar presturinn hefur gefið þau saman smellir Ryan síðan myndarlegum kossi á brúði sína.

Daginn eftir eru nýbökuð brúðhjónin þó sammála um að nóttin hafi verið hálf vandræðaleg. Ryan sagði kynlífið hafa verið ánægjulegt en langt því frá eins og gengur og gerist í bíómyndunum. Shanna sagði kynlífið hafa verið dásamlegt en þó sársaukafullt.

Þrátt fyrir mikla gagnrýni eru framleiðendur The Virgin Diaries sáttir með fyrsta þáttinn. Timothy Kuryak, framleiðandi hjá sjónvarpsstöðinni TLC, sagði að fólkið í þáttunum hefði tekið meðvitaða ákvörðun um að deila meydómsmissi sínum með áhorfendum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×