Erlent

Dóttir og Grey's Anatomy björguðu lífi móður

Vinkonurnar Madisyn og Katelynn ásamt Kandace Seyferth.
Vinkonurnar Madisyn og Katelynn ásamt Kandace Seyferth. mynd/ABC
Þriggja barna móðir segir tíu ára gamla dóttur sína, vinkonu hennar og sjónvarpsþáttinn Grey's Anatomy hafa bjargað lífi sínu.

Stúlkurnar voru snarar í snúningum þegar hin 36 ára gamla Kandace Seyferth hneig niður í kjölfar astmakasts. Dóttir hennar, Madisyn, hringdi um leið í neyðarlínuna og blés síðan í móður sína. Á meðan hóf tólf ára gömul vinkona hennar hjartahnoð.

Bráðaliðar mættu á staðinn nokkrum mínútum seinna og áttu ekki orð yfir dugnaði stúlknanna. Þær björguðu lífi Kandace.

Kandance var flutt á spítala og mun ná sér að fullu. Í viðtali á sjónvarpsstöðinni ABC sagði Kandance að það væri læknaþættinum Grey's Anatomy að þakka að hún væri á lífi. Hún sagðist hafa horft á þáttinn í hverri viku ásamt dóttur sinni.

Bráðaliðinn Jeff Hermann sagði að það hefði verið ótrúleg sjón að sjá stúlkurnar framkvæma skyndihjálp á Kandance. Hann furðaði sig á hversu yfirvegaðar stúlkurnar hefðu verið.

Eftir að Kandance hafði verið komið á spítala forvitnaðist unnusti hennar um kunnáttu stúlknanna. Þær sögðu að skyndihjálpin hefði verið auðveld - þær hefðu séð þetta 100 sinnum áður í sjónvarpinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×