Erlent

Kraftaverkapilturinn Caleb - hjartað hætti að slá í 40 mínútur

Það er ekki að sjá í Caleb litla að hann hafi verið lífvana í 40 mínútur.
Það er ekki að sjá í Caleb litla að hann hafi verið lífvana í 40 mínútur. mynd/ABC 15
Tveggja ára gamall piltur var í hjartastoppi í 40 mínútur. Eftir ótrúlegan bata hleypur hann nú um heimili sitt líkt og ekkert hafi í skorist.

Móðir hins tveggja ára gamla Caleb Teodorescu kom að honum lífvana í sundlaug fjölskyldunnar. Hún dró hann úr lauginni og hóf hjartahnoð. Hún kallaði á hjálp frá nágrönnum sínum sem hringdu í neyðarlínuna.

Dr. Corey Philpot, barnalæknir hjá Banner Medial Center í Glendale í Arizona, sagði að Caleb hefði í raun verið látinn þegar bráðaliðar komu með hann á spítalann. Hjartahnoðið hafði þó borið árangur en útlitið var þó enn slæmt. Caleb var í dauðadái þegar Philpot hóf björgunaraðgerðir.

Philpot óttaðist langvarandi heilaskemmdir ef Caleb myndi lifa af. Hann ákvað að setja piltinn í öndunarvél á meðan næstu skref voru ákveðin.

Ákveðið var að lækka líkamshita Calebs svo efnaskipti hans yrðu hægari. Þannig væri vonandi hægt að hlífa heila Calebs.

Nokkrum dögum seinna hófu læknar að hækka líkamshita Calebs. Brátt sýndi Caleb viðbrögð við snertingu og því næst hreyfði hann fætur sína. Á fimmta degi opnaði hann augun.

Philpot sagði að á sínum 23 árum í barnalækningum hefði hann aldrei nokkurn tíma séð slíkan bata. Það væri í raun ómögulegt að sjá á Caleb hvað hann hefið gengið í gegnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×