Erlent

Hinsegin mörgæsapar fær loks að ættleiða

Mörgæsaparið hefur lengi barist fyrir því að fá að ættleiða.
Mörgæsaparið hefur lengi barist fyrir því að fá að ættleiða. mynd/ABC
Hinsegin mörgæsapar í Kína hefur ættleitt nýfæddan unga. Móðir ungans gat ekki séð um hann eftir að hún eignaðist tvíbura.

Fuglafræðingurinn Kevin McGrowan segir í viðtali á fréttastöðinni ABC að það sé afar sjaldgæft að mörgæsir eignist tvíbura. Þegar slíkt gerist er nær öruggt að annar unginn muni deyja. Því var ákveðið að gefa hinseginn nágrönnum móðurinnar annan ungann.

McGrowan bendir á að það skipti í raun litlu máli hvort að foreldrar fugla séu karlkyns eða kvenkyns. Bæði kyn geta auðveldlega séð um ungana.

Hinsegin mörgæsaparið virðist hafa beðið lengi eftir ættleiðingunni. Nokkrum sinnum hafa félagarnir reynt að stela eggjum frá verðandi mæðrum. McGrowan segir að mörgæsaparið sýni eðlileg merki um að þeir séu reiðubúnir að eignast unga.

McGrowan segir að unginn muni aðlagast foreldrum sínum og að hann muni að öllum líkindum dafna eins og hver annar ungi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×