Erlent

Vaxandi líkur á að ESB sé að klofna í tvennt

Sterkar og vaxandi líkur eru á að Evrópusambandið sé að klofna í tvennt og að ríkin 17 á evrusvæðinu munu fara sínar eigin leiðir með aðgerðir til að berjast gegn skuldakreppunni á svæðinu.

Þetta er ein af niðurstöðum leiðtogafundar Evrópusambandsins sem stóð langt fram á nótt. Ekki náðist eining meðal þeirra 27 landa sem mynda sambandið um breytingar á sáttmála þess til að bjarga evrunni. Það var einkum andstaða Breta sem koma í veg fyrir breytingarnar en Bretar vilja verja fjármálamarkaði sína í London gegn áhrifunum af þeim.

Leiðtogafundinum er ekki lokið og heldur hann áfram í dag. Í evrópskum fjölmiðlum segir að enn sé möguleiki á að koma í veg fyrir klofning Evrópusambandsins en hann fer hratt dvínandi.

Í frétt um málið á BBC segir að líklega muni sex aðrar þjóðir taka þátt í aðgerðum evruríkjanna 17 gegn skuldakreppunni. Þetta yrði gert með milliríkjasamningum og án aðkomu Evrópusambandsins.

Leiðtogafundurinn í nótt var hinsvegar ekki árangurslaus. Samþykkt voru hertari reglur og eftirlit með fjárlagagerð ríkjanna innan ESB ásamt reglum um sektir ef viðkomandi ríkir fer fram úr fjárlögum sínum.

Þá var einnig samþykkt að stækka björgunarsjóð evrusvæðisins upp í 500 milljarða evra og leiðtogarnir samþykktu að ríkin inn ESB myndu veita Alþjóðagjaldeyrissjóðnum 200 milljarða evra lán sem sjóðurinn gæti svo notað fyrir aðþrengd lönd á evrusvæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×