Erlent

James Cameron sakaður um að hafa stolið hugmyndinni að Avatar

James Cameron
James Cameron mynd/AFP
Leikstjórinn James Cameron hefur verið kærður fyrir að hafa stolið hugmyndinni að kvikmyndinni Avatar. Það er fyrrverandi starfsmaður hjá framleiðslufyrirtæki Camerons sem lagði fram kæruna.

Eric Ryder fer fram á óuppgefna upphæð í miskabætur vegna kvikmyndarinnar. Avatar er tekjuhæsta kvikmynd allra tíma og tók inn 1.7 milljarð dollara í miðasölu.

Ryder segir að efnistök smásögu sem hann skrifaði árið 1999 hafi verið afar lík þeim sem finna má í Avatar. Á þeim tíma starfaði Ryder fyrir Cameron. Árið 2002 var síðan ákveðið að smásaga Ryders yrði ekki kvikmynduð. Ryder var tjáð að enginn hefði áhuga á að sjá ævintýramynd sem fjallaði um umhverfisvernd.

Ryder heldur því fram að sagan sem hann skrifaði árið 1999 hafi fjallað um landnám stórfyrirtækis á fjarlægu tungli í þeim tilgangi að nýta auðlindir þess. En líkindin enda ekki þar. Ryder segir að aðalpersóna sögu sinnar hafi verið njósnari á vegum fyrirtækisins sem á endanum verður leiðtogi andspyrnuhóps sem berst gegn aðgerðum fyrirtækisins.

Ryder viðurkennir að Cameron hafi átt upphaflegu hugmyndina að Avatar. En hann segir að uppbygging sögunnar hafi verið sín hugmynd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×