Erlent

Áður óþekktar gryfjur fundust við Stonehenge

Tvær áður óþekktar gryfjur sem fundist hafa við Stonehenge í Englandi benda til að staðurinn hafi verið helgistaður sóldýrkenda áður en hin dularfulla steinhvelfing var reist þar.

Fjallað er um málið á BBC en þar segir að gryfjur þessar séu staðsettar þannig að auðvelt var að fylgjast með gangi sólarinnar á mismunandi árstíðum.  Í gryfjunum gætu hafa verið steinar, trjábolir eða eldstæði sem sýndu upphaf sólarupprásar og sólseturs á hverjum degi.

Það var alþjóðlegur hópur vísindamanna sem fann þessar gryfjur með nýrri tækni en þessi hópur hefur unnið að rannsóknum á Stonehenge síðan í fyrra.

Þessi fundur bendir til að staðurinn hafi verið notaður til trúarathafna áður en hin þekkta steinhvelfing var reist við Stonehenge fyrir yfir 5.000 árum síðan.

Margar tilgátur hafa verið upp um tilgang Stonehenge. Meðal þeirra má nefna að þetta sé forn grafreitur, að Merlin galdramaður Arthúrs konungs hafi byggt staðinn eða að þetta hafi verið lendingarstaður fyrir geimverur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×