Erlent

Líbía fær samþykki Alþjóðaglæpadómstólsins

Luis Moreno-Ocampo mætir á fund með yfirvöldum í Líbíu.
Luis Moreno-Ocampo mætir á fund með yfirvöldum í Líbíu. mynd/AFP
Saksóknari Alþjóðaglæpadómstólsins sagði í dag að yfirvöldum í Líbíu sé frjálst að rétta yfir syni og erfingja Muammars Gaddafi, fyrrverandi einræðisherra landsins. Hann sagði þó að dómarar frá Hag verði þó að vera viðriðnir málið.

Luis Moreno-Ocampo, saksóknari Alþjóðaglæpadómstólsins, var í Trípólí í dag og ræddi við leiðtoga Þjóðarráðsins um örlög Saif Gaddafi.

Saif var handsamaður af byltingarhermönnum fyrir stuttu og er nú í haldi í bænum Zintan.

Alþjóðaglæpadómstóllinn hefur ákært Saif fyrir glæpi gegn mannkyninu. Yfirvöld í Líbíu krefjast þess að fá að rétta yfir honum - jafnvel þó að landið sé ekki enn með virkt réttarkerfi.

Að auki hefur Alþjóðaglæpadómstóllinn kært fyrrverandi upplýsingaráðgjafa Muammars Gaddafi,  Abdullah al-Senoussi, fyrir glæpi gegn mannkyninu. Talið er að al-Senoussi hafi verið handsamaður um helgina en bráðabirgða forsætisráðherra Líbíu hefur ekki staðfest það.

Mannréttindasamtök hafa biðlað til yfirvalda í Líbíu um að réttað verði yfir þeim Saif Gaddafi og al-Senoussi í Hag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×