Erlent

Björgunaráætlun Apollo 13 fer á uppboð

Freid Haise, James Lovell og Jack Swigert.
Freid Haise, James Lovell og Jack Swigert. mynd/AFP
Blaðsíða úr gátlista Lovells.mynd/NASA
Gátlisti James Lovell sjóliðsforingja og stjórnanda Apollo 13 geimfarsins fer á uppboð í næstu viku. Listinn er einn merkilegasti minnisgripur geimferðaáætlunar NASA.

Apollo 13 hefði orðið þriðja geimflaugin til að lenda á tunglinu en ekkert varð af því. Stuttu eftir að flauginni var skotið á loft varð sprenging í súrefnisforða vélarinnar.

James Lovell, Fred Haise og Jack Swigert notuðu lendingarbúnað Apollo 13 sem björgunarbát. Næstu klukkutímana var Lovell í sambandi við flugstjórn NASA og reyndi ásamt vísindamönnum að skipuleggja heimförina.

Geimfarinu vantaði orku til að knúa lendingarbúnaðinn og þurftu geimfararnir því að slökkva á öðrum tækjabúnaði.

Gátlistinn sem Lovell útbjó ásamt vísindamönnum á jörðu niðri er yfirfullur af nákvæmum mælingum og leiðbeiningum. Lovell þurfti að reikna út hvert einasta gildi - smávægileg villa hefði kostað geimfarana lífið.

Í listanum má einnig finna handskrifaðar leiðbeiningar og áminningar sem Lovell ritaði niður.

Gátlistinn er 70 blaðsíður. Í honum er að finna 59 aðgerðir sem geimfararnir þurftu að framkvæma svo að geimfarið gæti lent á jörðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×