Erlent

Aldraðar ruðningshetjur takast á - myndband

Það eru 48 ár síðan varnarmaðurinn Angelo Mosca braut illa á leikstjórnandanum Joe Kapp. En óvildin er enn staðar eins og gestir á kvöldverði þeim til heiðurs komust að.

Kapparnir spiluðu báðir í kanadísku ruðningsdeildinni og þeir mættust í úrslitaleik deildarinnar árið 1963. Mosca var sakaður um að hafa tæklað Kapp of seint af ásettu ráði. Kapp þurfti að hætta keppni vegna meiðsla og lið Mosca bar sigur úr býtum.

Það átti loks að útkljá mál þeirra á kvöldverðinum en sú tilraun endaði með ósköpum.

Eftir að Mosca hafði ávarpað gestina var Kapp kallaður á svið. Hann gekk að Mosca með blóm í hönd. Varnarmaðurinn gamli vildi þó lítið með ólífugreinina að gera og sagði Kapp að troða henni upp í óæðri endann.

Upp úr sauð á milli félaganna eftir það og til handalögmála kom.

Það þurfti síðan yngri og ábyrgari menn til að stöðva slagsmálin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×