Erlent

Þraukaði ekki eina kvikmynd með dótturinni - "Mamma er full"

Ekki eru allir jafn hrifnir af Strumpunum.
Ekki eru allir jafn hrifnir af Strumpunum. mynd/AFP
Foreldrahlutverkið reynist sumum erfitt. Móðir í San Francisco í Bandaríkjunum virðist hafa fengið nóg af barnamyndunum þegar dóttir hennar vildi sjá nýju Strumpa-myndina í bíó. Hún drakk heila vodkaflösku á meðan myndinni stóð.

Lögreglan stöðvaði Sarah Boushey eftir að hún hafði keyrt á tvo bíla og stofnað lífi sínu og dóttur sinnar í hættu. Svo ölvuð var Boushey að hún gat ekki gefið upp nafn sitt.

Fjögurra ára gömul dóttir hennar kom þá til bjargar. Hún gaf lögregluþjóninum allar upplýsingar um móður sína og sagði síðan að mamma sín væri full.

Vitni segja ástand Boushey hafa verið skelfilegt og hún hafi verið með óráði.

Saksóknarinn Steve Wagstaffe sagði fréttamiðlinum SF Weekly að hann væri ekki beinlínis aðdáandi Strumpanna - hann þyrfti þó ekki að teyga heila vodkaflösku til að þrauka eina kvikmynd með þeim.

Wagstaffe sagði það vera hræðilegt að dóttir konunnar hefði haft skilning á ástandi móður sinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×