Enski boltinn

Dalglish: Hugsið ykkur um áður en þið kaupið miða á Chelsea-leikinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Kenny Dalglish, stjóri Liverpool, er vægast sagt fúll út í enska knattspyrnusambandið fyrir að láta liðið spila með tveggja sólarhringa millibili.

Liverpool mætir Chelsea í fjórðungsúrslitum enska deildabikarsins þann 29. nóvember, aðeins tveimur dögum eftir mikilvægan leik gegn Manchester City í ensku úrvalsdeildinni.

„Það er algjör hneysa að leikmenn skuli vera beðnir um að spila lykilleik í ensku úrvalsdeildinni og svo aftur í deildabikarnum 48 klukkustundum síðar," sagði Dalglish við enska fjölmiðla.

„Ef yfirvöld vilja gengisfella eigin keppnir þá er það þeirra mál. En það ætti ekki að koma þeim á óvart ef þessi keppni verði notuð til að leyfa ungum leikmönnum að öðlast reynslu."

„Ég ætla alla vega að segja stuðningsmönnum okkar að hugsa sig vandlega um áður en þeir kaupa sér miða á leikinn gegn Chelsea. Við viljum ekki að þeir eyði pening í miðakaup þegar við erum neyddir til að nota unga leikmenn."

„Svo er City í svipaðri stöðu vegna leiks liðsins við Arsenal. Það er semsagt verið að fara mjög illa með lið sem hafa tekið þessa keppni mjög alvarlega síðustu tvö árin."

„Liverpool og City eru bæði reiðubúin að færa leik okkar fram til laugardagsins. En okkur er sagt að það sé ekki hægt vegna sjónvarpsútsendingarinnar."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×