Enski boltinn

Capello hrósaði ungu strákunum eftir sigurinn á Spáni í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Spánverjar fundu engar leiðir framhjá enska varnarveggnum í gær.
Spánverjar fundu engar leiðir framhjá enska varnarveggnum í gær. Mynd/AP
Fabio Capello, þjálfari enska landsliðsins, var óhræddur við að kasta ungu leikmönnunum út í djúpu laugina á móti Heims- og Evrópumeisturum Spánar í vináttulandsleiknum á Wembley í gær en enska landsliðið vann leikinn 1-0 þökk sé sigurmarki Frank Lampard.

„Þetta var mikilvægur sigur fyrir sjálfstraust leikmannanna og fyrir trú stuðningsmannanna. Það mikilvægasta við þennan leik að mínu mati var þó frammistaða ungu strákanna Rodwell, Welbeck og Jones," sagði Fabio Capello en hann telfdi Manchester United manninum Phil Jones inn á miðjunni á móti að margra mati bestu miðju í heimi.

„Þetta eru mjög góðir ungir leikmenn og ég sá það á þessum leik að þeir verða mikilvægir fyrir landsliðið á næstu árum. Þeir spiluðu óttalausir og óhræddir og sýndu það að þeir eru líkamlega og tæknilega tilbúnir að spila með þeim fullorðnu," sagði Capello.

Capello sagði að Danny Welbeck og Kyle Walker yrðu báðir í byrjunarliðinu á móti Svíum á þriðjudagskvöldið.

Capello var einnig mjög ánægður með frammistöðu miðvarðanna Joleon Lescott og Phil Jagielka. „Þeir voru frábærir og voru alltaf vel staðsettir þegar Spánverjarnir reyndu eitthvað. Þeir spiluðu fullir sjálfstraust og það er lykilatriði í að verjast liði eins og Spáni," sagði Capello.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×