Enski boltinn

Petr Cech: Ég myndi líta út eins og Leðurblökumaðurinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Petr Cech, markvörður Chelsea, varð fyrir því óláni að nefbrotna í leiknum á móti Blackburn Rovers í ensku úrvalsdeildinni um helgina og það er því óvíst með þáttöku hans með tékkneska landsliðinu í umspilsleikjunum um sæti á Evrópumótinu næsta sumar.

Tékkar mæta Svartfellingum í fyrri leiknum á föstudaginn og seinni leikurinn er síðan þriðjudaginn eftir rúma viku. Það lið sem hefur betur í þessum tveimur leikjum verður með á EM í Póllandi og Úkraínu.

„Við skulum bara sjá til hvað læknarnir segja. Ef ég á vera í byrjunarliðinu þá þyrfti ég að spila með grímu. Ég er þegar með hlíf á hausnum og myndi þá líklega líta út eins og Leðurblökumaðurinn," sagði Petr Cech í léttum tón.

Petr Cech kláraði leikinn á móti Blackburn og hélt hreinu í fyrsta sinn síðan í fyrstu umferðinni í ágúst. Brotna nefið hans var "teipað" fast en það varð um sjö mínútna töf á leiknum á meðan hugað var að tékkneska markverðinum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×