Sport

Ótrúleg endurkoma Murray gegn Nadal

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Murray og Nadal með verðlaun sín í leikslok.
Murray og Nadal með verðlaun sín í leikslok. Nordic Photos / AFP
Skotinn Andy Murray sigraði Spánverjann Rafael Nadal í úrslitum opna japanska meistaramótsins í tennis í dag. Allt leit út fyrir sjötta sigur Nadal í röð gegn Murray sem sneri taflinu við eftir tap í fyrsta setti og vann glæsilegan sigur 3-6, 6-2 og 6-0.

Yfirburðir Skotans í þriðja settinu voru miklir eins og tölurnar gefa til kynna en Nadal vann aðeins fjögur stig í lotunum sex. Murray hefur aðeins tapað einu sinni í síðustu 22 viðureignum og vann sitt þriðja mót á tveimur mánuðum. Hann er farinn að anda ofan í hálsmálið á Roger Federer sem situr í þriðja sæti ATP-listans.

„Það þurfti einhverja bestu frammistöðu sem ég hef sýnt í þriðja settinu. Ég hef spilað marga góða leiki gegn Rafa í gegnum tíðina en ég var mjög stöðugur í þetta skiptið. Gerði nánast engin mistök og spilaði vel á mikilvægum augnablikum,“ sagði Murray.

Nadal sagði Murray einfaldlega hafa spilað of vel.

„Uppgjafir hans voru frábærar þegar mikið lá við. Hann spilaði stórkostlega og gerði engin mistök í lokasettinu. Hann var sókndjarfur og ég átti ekkert svar við skotum hans,“ sagði Nadal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×