Fótbolti

Guðný Björk og Margrét Lára sáu um Örebro - Þóra Björg sá rautt

Stefán Árni Pálsson skrifar
Þóra Björg fékk að líta rauða spjaldið í leiknum.
Þóra Björg fékk að líta rauða spjaldið í leiknum.
Guðný Björk Óðinsdóttir skoraði fyrir Kristianstad í gær þegar liðið bara sigur úr býtum gegn  Örebro 4-2 í sænsku úrvalsdeildinni.

Örebro var með yfirhöndina í hálfleik og leiddi leikinn 1-0, en Kristianstad skoraði fjögur mörk á fyrstu tuttugu mínútum síðari hálfleiksins. Markadrottningin, Margrét Lára Viðarsdóttir, var ekki á skotskónum en hún tók þá upp á því að leggja upp tvö mörk.

Guðný Björk skoraði síðan síðasta mark Kristianstad í leiknum. Örebro náði aðeins að minnka muninn undir lokin. Guðný Björk, Margrét Lára, Erla Steina Arnardóttir og Sif Atladóttir léku allan leikinn fyrir Kristianstad. Ólína G. Viðarsdóttir var í eldlínunni með Örebro.

Kristianstad er 6. sæti deildarinnar með 31 stig, en þjálfari liðsins er Elísabet Gunnarsdóttir. Örebro er í fimmta sæti tveimur stigum fyrir ofan Kristianstad.

Toppliðið LdB Malmö lék einnig um helgina, en félagið tapaði 5-3 fyrir Tyresö. Þessi lið eru tvö efstu liðin í sænsku úrvalsdeildinni, en Malmö hélt í toppsætið þrátt fyrir tapið.

Þrír leikmenn Malmö fengu að líta rauðaspjaldið í leiknum en meðal þeirra var markmaðurinn Þóra Björg Helgadóttir sem fékk rautt spjald þegar rúmlega hálftími var eftir af leiknum.

Sara Björk Gunnarsdóttir skoraði eitt mark fyrir Malmö í leiknum en það dugði ekki til og liðið varð að sætta sig við tap.

Malmö er enn í efsta sæti deildarinnar með 40 stig en Tyresö hefur minnkað muninn á toppnum og hefur 37 stig, en fjórar umferðir eru eftir af deildarkeppninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×