Íslenski boltinn

Strákarnir töpuðu 0-2 á móti Norðmönnum í Kópavoginum

Mynd/Óskar Andri
Fimm leikja sigurgöngu 21 árs landsliðsins á heimavelli er lokið eftir að íslensku strákarnir töpuðu 0-2 á móti Noregi á Kópavogsvelli í kvöld en leikurinn var í undankeppni EM 2012. Íslenska liðið hafði unnið fyrsta leik sinn í riðlinum á fimmtudaginn en tókst ekki að ná þeirri draumabyrjun sem liðið óskaði sér.

Íslenska liðið byrjaði leikinn vel og fyrsti hálftíminn var frábær þar sem Ísland fékk fjölmörg fín marktækifæri. Það var lítið sem ekkert að gerast hjá Noregi þar til að íslenska vörnin gerir mistök. Norðmenn nýttu sér það og komust í 1-0 á 31. mínútu.

Markið skoraði Joshua King með skalla en hann er í eigu Manchester United en í láni hjá þýska liðinu Gladbach. Norðmenn nýttu sér það vel að vera marki yfir, tóku enga áhættu og lögðu ofurkapp á varnarleikinn.

Norðmenn fengu frábært tækifæri til að bæta við marki á 53. mínútu en varamarkvörðurinn Ásgeir Þór Magnússon kom þá ískaldur inn í markið og varði vítaspyrnu Joshua King.

Aðalmarkvörður íslenska liðsins, Arnar Darri Pétursson, fékk á sig vítið og meiddist illa í leiðinni þannig að Hattarmaðurinn varð að stökkva í markið með þessum frábæra árangri. Þetta var fyrsti leikur Ásgeirs með 21 árs landsliðinu.

Fyrirliði Norðmanna, Thomas Rogne, sem leikur með Celtic, innsiglaði síðan sigur Norðmanna eftir að íslenska vörnina sofnaði á verðinum í aukaspyrnu.

Þetta var að mörgu leyti óþarfa tap en íslenska liðið náði ekki að nýta sér góða byrjun og Norðmenn höfðu síðan leikinn í hendi sér eftir að þeir komust yfir.

Íslenska liðið saknaði tilfinnanlega Björn Bergmanns Sigurðarsonar sem skoraði bæði mörkin á móti Belgum. Hann var ekki með í þessum leik þar sem að hann var kallaður upp í A-landsliðið.

Hér fyrir neðan má sjá textalýsingu frá leiknum þar sem koma fram allar helstu upplýsingar um framvindu leiksins sem og leikmannahópa liðanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×