Íslenski boltinn

Bjarni Jó: Skyndisóknirnar hreint helvíti fyrir andstæðingana

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Bjarni Jóhannsson, þjálfari Stjörnunnar.
Bjarni Jóhannsson, þjálfari Stjörnunnar. Mynd/Daníel
Bjarni Jóhannsson, þjálfari Stjörnunnar, var vitanlega hæstánægður með 5-1 sigur sinna manna á Þór í dag.

„Við duttum aðeins niður um miðbik fyrri hálfleiksins og fengum á okkur mark en heilt yfir var þetta frábær leikur og afar vel útfæður. Þetta var dugnaðarsigur og vorum við sérstaklega öflugir í seinni hálfleik,“ sagði Bjarni við Vísi eftir leikinn.

„Við létum boltann ganga vel, menn hlupu bæði með og án bolta og þetta var í raun bara þrælgott.“

Rauða spjaldið sem Stjörnumaðurinn Baldvin Sturluson fékk í lok fyrri hálfleiks virtist efla Stjörnumenn mikið.

„Að sjálfsögðu, það þýðir ekkert að væla út af því þó svo að mér hafi fundist það grimmur dómur. En það varð til þess að við fórum aftar á völlinn og beittum skyndisóknum sem geta verið hreint helvíti fyrir andstæðingana.“

Stjarnan gerði 1-1 jafntefli við Víking í síðasta leik þrátt fyrir að hafa fengið fjölda færa í leiknum en þeir bláklæddu bættu fyrir það í dag.

„Við erum að skapa okkur 15-20 skotfæri í leik og ef við værum með örlítið meiri gæði í þessu - sem við erum vissulega að reyna að vinna í - þá fara fleiri boltar inn. Auðvitað vildi maður þó dreifa mörkunum betur á leikina því stigin skipta jú meiri máli en mörkin.“

Jesper Jensen meiddist í leiknum en Bjarni vissi ekki hvort meiðslin væru alvarleg. „Nei. Hann missteig sig á þurru gervigrasinu og þetta er slæmt. Hann er frábær leikmaður“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×