Innlent

Lögreglan ætlar að kanna ökurita tékknesku fjallarútunnar

Nú er verið að flytja stóra beltagröfu á dráttarbíl eftir Fjallabaksleið Nyrðri, áleiðis að Blautulónum, til að ná tékkneskri fjallarútu upp úr lónunum, þar sem hún hefur verið á kafi frá því á laugardag.

Jafnframt verður dælt í stóra loftpúða til að létta hana, en þeir einir dugðu ekki til að ná henni upp í gær. Aðgerðin er í samráði og með samþykki umhverfisstofnunar og Vatnajökulsþjóðgarðs og er stefnt að því að sem minnst jarðrask verði við aðgerðina.

Fyrst var haldið að rútan væri á hliðinni eða á hvolfi, en hún er nú á réttum kili, sem auðveldar björgunaraðgerðir. Birst hafa myndir af glæfralegum akstri rútunnar um hálendi landsins undanfarin sumur, og ætlar lögreglan á Hvolsvelli meðal annars að kanna akstursskífur úr rútunni þegar hún kemur á þurrt. Á meðfylgjandi myndbandi má sjá kynningarmyndband tekið hér á landi.

Þá skipta tveir bílstjórar með sér akstrinum og ekki endilega þeir sömu ár eftir ár þannig að það getur orðið erfitt að finna einhvern sökudólg. Farþegarnir 22 héldu frá Vík í gær , gistu i Reykjavík í nótt og halda heimleiðis í kvöld.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.