Innlent

Byssumaður biðst afsökunar - ætlar í meðferð

Páll Reynisson biðst afsökunar á gjörðum sínum.
Páll Reynisson biðst afsökunar á gjörðum sínum. Mynd / Villi
„Að gefnu tilefni játa ég að mér urðu á persónuleg mistök síðastliðið sunnudagskvöld sem ég ber einn ábyrgð á," segir Páll Reynisson, sem var handtekinn um helgina eftir að hann hafði skotið af skammbyssum og haft í hótunum við lögreglumenn. Hann var ölvaður þegar atvikið átti sér stað.

Lögreglan krafðist gæsluvarðhalds yfir Páli og að hann gengist undir geðmat. Héraðsdómur Suðurlands féllst ekki á kröfu lögreglustjórans.

Páll rekur veiðisafn á Stokkseyri og á yfir níutíu byssur. Þær voru gerðar upptækar eftir atvikið auk þess sem hann var sviptur vopnaleyfi til bráðabirgða.

Hann hefur hinsvegar kært þá ákvörðun og verður það mál tekið fyrir í Héraðsdómi Suðurlands í vikunni.

Páll sér mikið eftir gjörðum sínum og segir í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér:

„Ég bið þá fyrirgefningar sem ég kann að hafa hryggt eða valdið ótta eða vonbrigðum með hegðun minni. Ég hef ákveðið að leita mér hjálpar við vanda mínum og er nú á leiðinni í áfengismeðferð."

Þá segir Páll að mistök sín séu Veiðisafninu á Stokkseyri óviðkomandi.

„Það verður áfram opið og þar geta safngestir áfram notið þess að skoða fjölbreyttasta safn villtra dýra á Íslandi sér til fróðleiks og ánægju," segir í yfirlýsingunni, en þar má finna fjölda dýra sem Páll hefur veitt í gegnum tíðina.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.