Innlent

Fyrrverandi ritstjóri sagði nauðsynlegt að ákæra Geir

Styrmir Gunnarsson
Styrmir Gunnarsson
Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, sagði við Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, að hann ætti engan annan kost en að taka þátt í að ákæra Geir H. Haarde, ella fyki traust á flokknum út í veður og vind um langa framtíð.

Viðtal við Bjarna birtist í Sunnudagsmogganum í dag þar sem hann ræðir meðal annars um stöðu flokksins, hugsjónir sínar og átökin í pólitíkinni. Þar segir hann meðal annars skiptar skoðanir hafa verið um hlutina og margir spáð endalokum flokksins gerði hann ekki þetta eða hitt.

Því næst segir Bjarni því hafa verið haldið fram við sig af málsmetandi manni, sem gjörþekki stjórnmálin og þjóðmálaumræðuna langt aftur í tímann, að hann ætti engan annan kost en að taka þátt í að ákæra Geir H. Haarde, ella fyki traust á flokknum út í veður og vind um langa framtíð.

Samkvæmt heimildum fréttastofu á Bjarni þarna við Styrmi Gunnarsson fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins sem í rannsóknarskýrslu Alþingis talaði eftirminnilega um ógeðslegt þjóðfélag þar sem væru engin prinsipp, engar hugsjónir

heldur einungis tækifærismennska og valdabarátta. Styrmir mun hafa sagt þetta á fundi með Bjarna og fleirum áður en málið fór fyrir þingið og atkvæði voru greidd um hverja ætti að ákæra.

Á fundinum mun Styrmir hafa verið þeirrar skoðunar að Sjálfstæðislfokkurinn ætti alls ekki að standa einn gegn ákærum á hendur fyrrverandi ráðherrum.

Styrmir sagðist hinsvegar aðspurður um málið í dag aldrei hafa lýst slíkri skoðun við Bjarna né aðra. Hann hafi ekki hugmynd um hvern Bjarni eigi við í viðtalinu og sér hafi alltaf fundist sú niðurstaða Alþingis að ákæra einn mann, fráleit.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×