Innlent

Upptaka skattsins ekki mistök

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra.
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra. Mynd/GVA
Tíu stórfyrirtæki hafa hætt starfsemi hér á landi vegna skattlagningar á vaxtagreiðslur, en þrátt fyrir það segir fjármálaráðherra að ekki hafi verið gerð mistök við upptöku skattsins. Nú stendur til að afleggja hann.

Afdráttarskattar voru festir í lög sumarið 2009, en þeir fela í sér að erlendir aðilar greiða tekjuskatt af vöxtum sem þeir innheimta hér á landi, nema sérstaklega sé tekið fyrir það í tvísköttunarsamningi.

Afdráttarskatturinn hefur verið harðlega gagnrýndur frá upphafi, en í september á síðasta ári birtust fregnir af því að tíu fyrirtæki hefðu lagt niður starfsemi árið áður gagngert vegna skattsins. Þau höfðu áður greitt milljarða í skatta hér á landi.

Þá hafi skattinum verið velt út í lántökukostnað innlendra aðila vegna ákvæða í lánasamningum, svo íslensk fyrirtæki hafi þurft að greiða hærri vexti fyrir vikið.

Í bandormi fjármálaráðherra stóð til að láta afdráttarskattinn falla niður þegar um lán milli ótengdra aðila er að ræða, en ráðherra segir að þetta hafi verið vegna vandkvæða við framkvæmd skattlagningarinnar á borð við það sem áður var nefnt. Efnahags- og skattanefnd hefur lagt til að málið verði látið bíða haustsins.

Þrátt fyrir að nú standi þannig til að breyta ákvæðum um afdráttarskattinn segir Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, að ekki sé hægt að tala um að mistök hafi verið gerð við upphaflegu lagasetninguna.

„Nei, grunnprinsippið við þessa skattlagningu er fullkomlega eðlilegt," segir Steingrímur. „Það er í samræmi við samskiptareglur ríkja og tvísköttunarsamninga, sem í sumum tilvikum fella þessa skatta niður á báða bóga. Þetta er eðlilegt fyrirkomulag við skattlagningu, en þegar menn rekast á hluti af þessu tagi í framkvæmdinni, þá leiðrétta menn það. Við erum ekki yfir það hafin að horfast í augu við það ef framkvæmdin kemur öðruvísi út en ætlað var og laga það."

Hins vegar hefur gagnrýni komið fram á framkvæmd skattlagningarinnar allt frá því síðasta sumar, en fjöldi hagsmunaaðila varaði sömuleiðis við skattinum áður en hann var tekinn upp. Af hverju var ekki löngu búið að bregðast við gagnrýninni?

Aðspurður hvers vegna ekki hafi verið brugðist við gagnrýninni fyrir löngu segir Steingrímur: "Þetta var í rauninni að koma til framkvæmda núna, og fyrstu greiðslurnar falla til á þessu ári. Við vildum sjá hvernig það væri í reynd og fá gögn um það til að sannreyna hvernig þetta væri. Málið er síðan þróað áfram á þeim grunni."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×