Erlent

Skaut garðskraut - tvisvar

Krókódíll.
Krókódíll.
Lögreglan í Kansas City fékk á dögunum útkall um að barn hefði komið auga á krókódíl í úthverfi borgarinnar. Lögreglan fór á vettvang og sá þá dýrið nærri tjörn.

Til þess að hafa vaðið fyrir neðan sig skaut lögreglumaður krókódílinn. En honum þótti dýrið undarlegt, því það hreyfði sig ekki þegar það fékk kúluna í sig.

Lögreglumaðurinn hleypti þá af öðru skoti. Nú hitti hann í höfuð dýrsins.

Aftur hreyfðist krókódíllinn ekki. Lögreglumennirnir nálguðust rándýrið stórhættulega af mikilli varúð til þess eins að uppgötva að þarna var um garðskreytingu að ræða.

Lögreglumönnunum til varnar, var rökkur úti og skrautið hálf falið í grasi. Þá var augljóslega búið að stilla því þannig upp að það væri hægt að ruglast á skrautinu og raunverulegum krókódíl.

Þess má reyndar geta að fyrir skömmu var gríðarlegur viðbúnaður í Bretlandi vegna tígurs. Þá kom í ljós að um tuskudýr var að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×