Erlent

Gaddafí sagður fyrirskipa nauðganir í stórum stíl

Viðræður um framtíð Líbíu ef Gaddafí fer frá völdum standa nú yfir . Einræðisherrann er sakaður um að beita skipulögðum nauðgunum sem vopni í baráttunni við uppreisnarmenn.

Leiðtogar vesturveldanna og nokkurra arabaríkja koma að viðræðunum, þar á meðal Hillary Clinton utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Fundurinn fer fram í Sameinuðu arabísku furstadæmunum og þar reyna menn að sjá fyrir hver þróun mála verði í landinu ef Gaddafí fer frá. NATO hefur sett aukinn kraft í loftárásir sínar á höfuðborgina Trípólí en uppreisnarmenn hafa átt undir högg að sækja í borginni Misrata. Þar féllu að minnsta kosti fjórtán í bardögum í gær.

Aðal saksóknari Alþjóða stríðsglæpadómstólsins í Haag fullyrti síðan í morgun að sannanir væru fyrir því að Gaddafí hafi fyrirskipað nauðganir á konum sem hliðhollar eru uppreisnaröflum í landinu. Gaddafí og synir hans eru eftirlýstir fyrir stríðsglæpi en ásakanir um skipulagðar nauðganir eru nýjar af nálinni. Líbískir stjórnarhermenn sem eru í haldi uppreisnarmanna hafa meðal annars sagt frá þessu og einnig því að Gaddafí hafi látið hermenn fá stinningarlyf til þess að auka kynhvöt þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×