Innlent

Íslandsheimsóknir hvítabjarna hluti af eðlilegu lífsmunstri

Ævar Petersen dýrafræðingur segir Ísland hluta af eðlilegu lífsmunstri hvítabjarna og telur það lögbrot að skjóta alla birni sem hingað koma.

Þau hafa orðið örlög allra hvítabjarna, sem sést hafa hérlendis undanfarna áratugi, að þeir voru allir drepnir. Ævar Petersen telur þetta ranga stefnu, og raunar lögbrot:

"Þeir eru friðaðir. Það er alger undantekning ef á að fella þá. Þannig að það má ekki vera hin almenna regla að fella hvern einasta hvítabjörn sem kemur hingað. Ef það er niðurstaða stjórnvalda, þá verður að breyta lögunum," segir Ævar.

Hann viðurkennir hættuna. Hvítabirnir séu hættuleg dýr sem geti drepið mann í einu höggi. Það réttlæti þó ekki að hvert einasta dýr sé skotið.

"Ég held að það eigi frekar að svæfa þau. Það er einfalt mál."

Ef ástand þeirra reynist dapurt megi svæfa þau fyrir fullt og allt en síðan verði að vera til áætlun um hvað eigi að gera við dýrin. Menn geti sett þau í Húsadýragarðinn, sent þau til Grænlands eða sleppt þeim, með gervihnattasendi, til að kanna hvort þau snúi aftur til Grænlands.

"Ég held að mörg þessara dýra, ef þau eru í góðu ástandi, muni fara aftur heim," segir Ævar.

En geta Íslendingar ekki búið í sambýli við ísbirni, eins og menn gera til dæmis í Kanada, Grænlandi og Rússlandi?

"Við Íslendingar kunnum það bara ekki," svarar hann.

Ævar telur að birnir sem hingað koma séu eðlilegur hluti af stofninum. En má þá telja Ísland sem hluta af búsvæðum ísbjarna?

"Ég held að það sé. Við erum á ystu mörkum, reyndar," svarar Ævar og bendir á að vitað sé um 600 birni að minnsta kosti sem komið hafi til Íslands í gegnum aldirnar. Komur bjarndýra til Íslands verði því að teljast eðlilegar.

"Það er ekki eitthvað sem er algjör undantekning. Það er hluti af þessu eðlilega lífsmunstri hvítabjarna," segir Ævar.


Tengdar fréttir

Fólk var á hvítabjarnarslóð

Þrír Hollendingar voru á göngu um Hornstrandir og Jökulfirði frá því í síðustu viku og komu til byggða í fyrra kvöld. Að því er fram kemur í Morgunblaðinu dvaldi fólkið m.a. lengi í Hornvík en hvítabjörn sást í Hlöðuvík á mánudag. Stutt er frá Hlöðuvík yfir í Hornvík. Ekkert símasamband náðist við þau. Það var farið úr Hornvík þegar björninn sást fyrst.

Kanna tíðar komur hvítabjarna

Umhverfisráðherra hefur óskað eftir greinargerð frá Náttúrufræðistofnun Íslands í samvinnu við Umhverfisstofnun, Veðurstofuna og aðra hlutaðeigandi um hugsanlegar orsakir aukinnar tíðni komu hvítabjarna hingað til lands. Fjórir birnir hafa gengið á land á síðustu þremur árum svo vitað sé, sem er mjög óvenjulegt þegar litið er til síðustu áratuga. Hafís hefur einnig verið langt frá landi á undanförnum árum, en sögulega hefur verið skýrt samband á milli heimsókna hvítabjarna og þess að hafís liggi við landið eða skammt undan landi. Óskað verður eftir því að NÍ hafi samband við vísindamenn bæði hérlendis og erlendis til að reyna að meta hvort tíðar komur hvítabjarna séu tilviljun eða endurspegli á einhvern hátt breytingar á náttúrufari, sem kalli á aukinn viðbúnað út frá öryggis- og verndarsjónarmiðum.

Ísbjörn synti látlaust 700 km á 9 dögum

Bandarískir vísindamenn hafa staðfest ótrúlegt sundþrek ísbjarna en þeir fylgdust með birnu synda látlaust nærri sjöhundruð kílómetra á níu dögum án þess að nærast. Þetta sýnir að ísbirnir geta synt milli Íslands og Grænlands, fram og til baka, án þess að stoppa.

Vill eftirlit með hvítabjörnum

Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar fyrir NV-kjördæmi, segir ástæðu til þess að taka upp virkt eftirlit með hvítabjarnaferðum á Hornströndum. Ólína skrifar um málið á bloggi sínu á vefnum eyjan.is. „Ferðamannafjöldi eykst ár frá ári á Hornströndum, en það er allur gangur á því hvort þeir sem leggja leið sína á svæðið tilkynni ferðir sínar. Farsímasamband er ekkert á Hornströndum, ekkert Tetra-samband auk þess sem fæstir ferðamenn hafa talstöðvar til umráða. Um vopnaburð er að sjálfsögðu ekki að ræða heldur,“ skrifar Ólína, og bætir við: „Mér sýnast þessi tíðindi kalla á að sest verði yfir málið.“

Vestfirski hvítabjörninn í fréttum

Skiptar skoðanir eru á því hvort réttlætanlegt hafi verið að fella hvítabjörninn á Hornströndum í gær. Ekki er vitað hve lengi björninn hafði hafst við á Hornströndum þegar hann sást. Hafís hefur ekki verið mjög nærri landinu að undanförnu og hefur mbl.is eftir Ingibjörgu Jónsdóttur landfræðing að björninn kunni að hafa dvalið um hríð á landinu. Lögreglan á Ísafirði mat aðstæður þannig að ómögulegt væri að vakta dýrið og tryggja að það færði sig ekki til byggða og var því ákveðið að fella dýrið af öryggisástæðum. Ekki eru þó allir sammála þessu mati lögreglunnar. Húni Heiðar Hallsson heimskautalögfræðingur fordæmir drápið og segir það bæði ólöglegt og óþarft. Í frétt á RÚV segir hann fráleitt að ekki skuli vera til björgunaráætlun fyrir hvítabirni hér á landi.

Björninn á leið til Reykjavíkur

Þyrla Landhelgisgæslunnar flytur nú hvítabjörninn sem var felldur í Rekavík fyrr í dag til Reykjavíkur. Hræið verður fært Náttúrufræðistofnun Íslands. Eins og sést á meðfylgjandi mynd sem fréttaritari Stöðvar 2 á Vestfjörðum tók er húnninn smár að vexti.

Ísbjörn á Hornströndum

Áhöfn fiskibáts sem staddur var fyrir utan Hælavík á Hornströndum sá ísbjörn vappandi í fjörunni þar rétt fyrir klukkan níu í morgun. Sjómennirnir höfðu samnband við Landhelgisgæsluna og þyrla hennar á leið í loftið til þess að kanna málið.

Ósmeykir við bjarndýrið

Skipverjar á Sædísi sáu bjarndýr í morgun í Hælavík á Hornströndum þar sem þeir voru að vitja um grásleppunet. Þeir fóru nærri dýrinu og voru ósmeykir. Hópur gönguskíðafólks er staddur í Veiðileysufirði. Þyrla Gæslunnar var væntanleg til Ísafjarðar í hádeginu. Síðar í dag verður ákveðið hvað gert verður. Reimar Vilmundarson, skipstjóri á Sædísi, segir í samtali við Ríkisútvarpið áhöfnina fyrst ekki ætla að trúa eigin augum. „Þá sáum við hvítabjörn þar í fjörunni. Við fórum bara alveg upp í fjöru að honum. Hann var bara þarna í rólegheitum og fór upp í snjóskafl að velta sér og svo þegar við vorum komnir alveg upp í fjöru þá kom hann bara alveg fram í flæðarmál og fylgdist með okkur. Við vorum bara með hann í svona 30 metra fjarlægð.“ Reimar segir bjarndýrið ekki hafa virst vera stórt.

Ísbjörn á Hornströndum

Ísbjörn sást í fjörunni í Hælavík á Hornströndum rétt fyrir klukkan níu í morgun. Það var áhöfn fiskibáts sem sá björninn og tilkynnti þegar um hann. Að sögn Hrafnhildar Brynju Stefánsdóttur upplýsingafulltrúa Landhelgisgæslunnar fer þyrla Gæslunnar vestur innan tíðar til að athuga málið. Málið er í höndum Umhverfisstofnunar og lögreglu sem mun taka ákvörðun um framhaldið.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.