Erlent

Leita að gröf Mónu Lísu

Hópur vísindamanna leitar nú að greftrunarstað Mónu Lísu, eða öllu heldur, fyrirsætunnar sem sat fyrir á þessu frægasta málverki sögunnar sem Leonardo Da Vinci málaði á sínum tíma. Vísindamennirnir notast við sérstakan radar og fínkemba nú klaustur eitt í ítölsku borginni Flórens þar sem talið er að fyrirsætan, Lisa Gherardini, hafi borið beinin.

Vonast þeir til þess að finna leifar af hauskúpu konunnar til þess að geta endurgert andlit hennar. Þótt hópurinn telji víst að Gherardini hafi setið fyrir veit þó enginn með vissu hver Móna Lísa var í raun og veru og er það einn af mestu leyndardómum listasögunnar.

Vísindamennirnir ætla því að reyna að endurgera andlit Gherardini og skera þannig úr um hvort þar fari hin raunverulega Móna Lísa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×