Fótbolti

Bosníska knattspyrnusambandið sett í bann

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Úr leik Bosníumanna og Rúmena í síðasta mánuði.
Úr leik Bosníumanna og Rúmena í síðasta mánuði. Nordic Photos / AFP
Alþjóða knattspyrnusambandið, FIFA, hefur sett lið á vegum knattspyrnusambands Bosníu og Hersegóvínu í ótímabundið keppnisbann.

Þrír forsetar eru nú í forsvari fyrir bosníska knattspyrnusambandið og stangast það á við reglur FIFA. Aðeins einn forseti má vera í hverju sambandi.

Þessi tilhögun er höfð á skipun forsetanna til að endurspegla þá þrjá þjóðarhópa sem eru fjölmennastir í landinu. Flestir eru Bosníakar, eða Bosníumúslimar, en hinir hóparnir samanstanda af Serbum annars vegar og Króötum hins vegar.

Bæði FIFA og UEFA, Evrópska knattspyrnusambandið, hafa fyrirskipað að aðeins einn maður sé í forsvari fyrir sambandið. Fulltrúar þess komu saman í höfuðborginni Sarajevó í vikunni en ekki tókst að finna lausn á málinu.

Karlalandslið Bosníu og Hersegóvínu er nú í fjórða sæti D-riðils í undankeppni EM 2012. Liðið á næst leik gegn Rúmeníu þann 3. júní en verður að finna lausn á sínum málum fyrir þann leik ef hann á að fara fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×