Enski boltinn

Ancelotti: Fæstir stjórar lifa það af að liðið þeirra sofi í tvo mánuði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carlo Ancelotti, stjóri Chelsea, viðurkennir það að hafa verið heppinn að hafa haldið starfi sínu þegar ekkert gekk hjá liðinu um mitt tímabilið. Chelsea er á hraðri uppleið upp töfluna og komst í 3. sætið með 2-0 sigri á Manchester City í gær. Chelsea er enn níu stigum á eftir toppliði Manchester United en á leik inni og á eftir að fara á Old Trafford.

„Ég er ánægður hérna og eins og þið vitið þá nær samningurinn minn til ársins 2012. Ég á því eitt ár eftir og eftir það munum við taka ákvörðun um framtíðina," svaraði Carlo Ancelotti þegar hann var enn á ný spurður út í framtíð sína hjá Chelsea í kjölfarið að stjórnarformaður Chelsea vildi fyrir leikinn ekki votta það að Ancelotti yrði áfram.

„Ef annar hvor aðilinn er ekki ánægður þá verður við að enda þetta samstarf," bætti ítalski stjórinn við.

„Ég veit vel að þetta lið svaf í tvo mánuði og þá fékk ég frábæran stuðning frá félaginu. Flestir stjórar liða sem sofa í tvo mánuði eru heima hjá sér að horfa á sjónvarpið en sem betur fer er ég hér ennþá," sagði Ancelotti.

Fernando Torres skoraði ekki í sjöunda leiknum í röð og hefur nú spilað í 498 mínútur í Chelsea-búningnum án þess að skora.

„Það skiptir ekki máli. Fyrir utan Liverpool-leikinn þá höfðum við unnið alla leikina sem hann hefur byrjað. Ég vona [Didier] Drogba, [Nicolas] Anelka og [Salomon] Kalou fari allir að skora aftur en Torres verður bara að halda áfram. Hann ætti ekki að missa sjálfstraustið og ég set ekki pressu á það að hann skori. Við verðum að vera þolinmóðir markið mun koma," sagði Ancelotti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×