Enski boltinn

Jarvis: Frábært símtal sem fullkomnar frábæra helgi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Matt Jarvis, leikmaður Wolves, var óvænt kallaður inn í enska landsliðshópinn, fyrir landsleikina á móti Wales og Gana. Jarvis hefur spilað vel með Úlfunum á tímabilinu og skoraði sigurmark liðsins á móti Aston Villa um helgina.

Jarvis varð þar með fyrsti leikmaður Wolves í næstum því 20 ár sem er valinn í enska landsliðið en Steve Bull var síðasti landsliðsmaður félagsins árið 1991. Matt Jarvis hefur skorað 4 mörk og gefið 5 stoðsendingar í 29 leikjum í ensku úrvaladeildinni á tímabilinu.

„Það var frábært að fá þetta símtal á sunnudagskvöldið og fá það staðfest að ég væri kominn í landsliðið," sagði Matt Jarvis í viðtali á heimasíðu Wolves.

„Þetta var mjög ánægjuleg stund og ég á bara eiginlega í vandræðum með að lýsa henni í orðum. Ég hef verið á bakvakt í nokkrum leikjum á þessu tímabili en núna er ég loksins kominn inn í hópinn," sagði Jarvis.

„Það hefur alltaf verið draumur minn að spila fyrir enska landsliðinu og nú er ég kominn einu skrefi nær því. Ég nýt þess í kvöld en svo ætla ég að gera allt mitt til þess að sýna mig og sanna og reyna að komast inn á völlinn," sagði Jarvis og bætti við:

„Þetta fullkomnar frábæra helgi," sagði Jarvis en það má sjá sigurmark hans á móti Aston Villa með því að smella á svipmyndir úr leiknum hér fyrir ofan.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×