Fótbolti

Ætla að framleiða gerviský fyrir HM í Katar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Al Gharrafa-leikvangurinn í Doha í Katar.
Al Gharrafa-leikvangurinn í Doha í Katar. Nordic Photos / Getty Images
Síðan það var tilkynnt að heimsmeistarakeppnin í knattspyrnu fari fram í Katar árið 2022 hafa margir í knattspyrnuheiminum lýst yfir miklum áhyggjum af því að spila í þeim mikla hita sem er á þessu svæði yfir sumarmánuðina.

Fyrst var stungið upp á því að láta keppnina fara fram um vetur en bæði Alþjóða knattspyrnusambandið sem og knattspyrnusamband Katar hafa tekið fyrir það.

Forráðamenn keppninar hafa þegar sagt að leikvangarnir þar sem leikirnir fara fram verða útbúnir heilmiklum loftkælikerfum og nú hafa vísindamenn í Katar hannað gerviský til að varpa skugga yfir bæði leikvanga og æfingasvæði þegar þess gerist þörf.

Um 60 milljónir króna kostar að framleiða hvert gerviský. Létt kolefni verður notað til að búa skýið til og því verður fyrst og fremst haldið á lofti með helíumgasi. Það verður búið fjórum vélum sem verða knúin áfram með sólarorku svo hægt sé að færa skýið til með fjarstýringu á jörðu niðri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×