Erlent

Kyrkislangan kíkti upp úr klósettinu

Sjö ára gamalli stúlku í Þýskalandi brá heldur en ekki í brún á dögunum þegar hún skrapp á klósettið heima hjá sér í Hannover. Þegar hún lyfti upp klósettsetunni kom stærðarinnar kyrkislanga í ljós. Stelpan hljóp rakleiðis til mömmu sinnar sem hringdi á lögregluna í ofboði.

Kvikindið var enn svamlandi í klósettskálinni þegar lögreglumennirnir mættu á svæðið og tóku þeir meðfylgjandi mynd af því. Þeir þorðu hinsvegar ekki að taka á dýrinu og kölluðu til meindýraeyða og slökkviliðið. En áður en liðsauki barst stakk slangan sér á ný niður í klósettið á vit nýrra ævintýra. Íbúar Hannover eru þessa dagana varari um sig en venjulega þegar þeir tefla við páfann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×