Fótbolti

Pele heldur að Platini ætli sér að verða forseti FIFA

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michel Platini.
Michel Platini. Mynd/AFP
Brasilíumaðurinn og knattspyrnugoðsögnin Pele telur að Michel Platini, núverandi forseti UEFA, ætli að bjóða sig fram gegn Sepp Blatter, forseta FIFA, í næstu framtíð. Það er talsverð óánægja með störf Blatter sem hefur verið forseti FIFA í þrettán ár

„Kannski mun Platini bjóða sig fram til forseta FIFA. Hann er þegar forseti UEFA og ætti að hafa gott tækifæri til að sækjast eftir forsetastól FIFA," sagði Pele í Singapúr.

Sepp Blatter sem er 74 ára gamall Svisslendingur hefur verið forseti FIFA síðan 1998 þegar hann tók við af Brasilíumanninum João Havelange.

Platini og Katarmaðurinn Bin Hammam, forseti asíska knattspyrnusambandsins, eru taldir eiga mesta möguleikana á því að velta Blatter úr sessi. Blatter sækist eftir endurkjöri 1. júní næstkomandi og hvorki Platini eða Bin Hammam hafa tilkynnt um framboð.

Pele segist sjálfur ekki vilja forseti FIFA en hann er orðinn sjötugur og heldur áfram að ferðast um heiminn sem sendiherra fótboltans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×