Fótbolti

Umfjöllun um Kolbein: Lék sér að einum besta varnarmanni deildarinnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brasilíumaðurinn Douglas sést hér missa stjórn á sér á meðan Kolbeinn horfir á.
Brasilíumaðurinn Douglas sést hér missa stjórn á sér á meðan Kolbeinn horfir á. Mynd/AFP
Kolbeinn Sigþórsson átti flottan leik með AZ Alkmaar um helgina þó svo að hann hafi ekki verið meðal markaskorara í 2-1 sigri á Twente í hollensku úrvalsdeildinni. Kolbeinn var valinn í lið vikunnar hjá hollenska netmiðlinum AD og fékk mikið hrós á mörgum vefmiðlum eins og vefsíðan fótbolti.net hefur tekið saman.

Mesta hrósið fær Kolbeinn frá pistlahöfundinum Edwin Struis, á netmiðlinum Nusport en hann fór yfir frammistöðu Kolbeins í leiknum.

Miðvörður Twente, Brasilíumaðurinn Douglas, fékk rautt spjald í fyrri hálfleik fyrir háskalega tæklingu, en í aðdraganda atviksins hafði hann tapað hverju einvíginu á fætur öðru gegn Kolbeini. Það hafi greinilega farið mjög illa í Brasilíumanninn sem missti algjörlega stjórn á sér í fyrrnefndi tæklingu.

Struis segist varla hafa orðið vitni að öðru eins, þar sem tvítugur stráksi lék sér að einum besta varnarmanni deildarinnar. Varnarmanni sem Hollendingar líta hýru auga til en Douglas hefur viðrað þann möguleika að skipta um ríkisfang og spila fyrir landslið Hollands.

Struis segir Kolbein búa yfir öllum með eiginleikum sem prýða þarf góða leikmenn, styrk, klókindum og sjálfstrausti. Hann ýjar síðan að því að Arséne Wenger reyni að krækja í Kolbein á nýjan leik til enska liðsins Arsenal.

AZ Alkmaar mætir Ajax um næstu helgi en Kolbeinn skoraði einmitt í fyrri leiknum sem AZ vann 2-0.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×