Innlent

Reyndu að fá andlega veikan son sinn lagðan inn en fengu ekki

Breki Logason skrifar
Karlmaður sem ákærður var fyrir tilraun til manndráps eftir að hann réðist á foreldra sína sem sváfu, var í morgun gert að sæta öryggisgæslu á viðeigandi stofnun. Foreldrarnir höfðu óskað eftir því að maðurinn yrði lagður inn vegna sjúkdóms síns, en við því var ekki orðið.

Dómurinn féll í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun en árásin átti sér stað á heimili fjölskyldunnar í október á síðasta ári. Móðirin lýsti því fyrir dómi þegar hún vaknaði upp við mikinn verk í vinstra auga og áttaði sig fljótlega á því að sonur hennar hefði stungið hana með skrúfjárni. Þá réðist hann einnig gegn föður sínum og stakk hann með skrúfjárninu fyrir neðan vinstra auga, skömmu áður en hann barði hann í höfuðið með tveggja kílóa pönnu.

Fyrir dómi sagði faðirinn málið harmsögu fyrir alla aðila en sonurinn hafði verið nokkuð veikur fyrir árásina. Hefðu foreldrarnir misst stjórn á því að fylgjast með lyfjanotkun hans, en hann tók inn lyf á þessum tíma að eigin geðþótta.

Sonurinn vildi ekkert tjá sig um verknaðinn fyrir dómi, enn í mati geðlækna og sálfræðinga er hann ekki talinn hafa ætlað að ráða foreldrum sínum bana. Þau lýstu því þó bæði fyrir dómi að það hafi flogið í gegnum huga þeirra á verknaðarstundu. Þá kemur einnig fram að hann hafi haft vel dulin merki geðrofs og sturlunar, sem hafi leitt hann til ósakhæfis.

Sonurinn var fámáll eftir árásina en sagði við móður sína að þetta væri fyrir Zyprexa-árin. Hún skildi það sem svo að hann hafi verið að refsa þeim fyrir inntöku geðlyfs með því heiti.

Einnig kemur fram að foreldrarnir hafi skömmu áður óskað eftir því að hann yrði lagður inn vegna sjúkdóms síns, en við því hafi ekki orðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×