Enski boltinn

Ferguson: Annaðhvort Manchester United eða Arsenal verður meistari

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United.
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United. Mynd/Nordic Photos/Getty
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, segir að baráttan um Englandsmeistaratitilinn standi núna bara á milli United og Arsenal. Hann sagði þetta á blaðamannafundi í dag fjórum dögum áður en United heimsækir Englandsmeistara Chelsea á Stamford Bridge.

Manchester United er með eins stig forskot á Arsenal en á auk þess leik inni á lærisveina Arsene Wenger sem er á móti Wigan um helgina. Arsenal vann Stoke á miðvikudaginn og spilar til úrslita um enska deildarbikarinn á sunnudaginn.

Efstu liðin í deildinni eiga 11 eða 12 leiki eftir og Manchester United er með átta stiga forskot á Manchester City sem er í 3. sæti. Tottenham er síðan tíu stigum á eftir United og Chelsea er heilum tólf stigum á eftir toppliðinu.

„Það er venjan að tvö lið stingi af þegar kemur að lokum tímabilsins og þannig lítur þetta út núna. Ég held að þetta verði barátta milli okkar og Arsenal," sagði Ferguson.

Chelsea spilar ekki um helgina og því getur United, með sigri á Wigan, verið búið að ná upp fimmtán stiga forskot á Lundúnaliðið þegar United-menn mæta á Brúnna á þriðjudaginn.

„Það verður ekki auðvelt fyrir Chelsea að koma til baka eftir að hafa dregist svona mikið aftur úr. Ég hef sagt það margoft að liðið með mesta stöðugleikann myndi vinna deildina. Þess vegna legg ég áherslu á að við höldum okkar striki og pössum upp á að missa ekki einbeitinguna," sagði Ferguson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×