Enski boltinn

Aftur tryggði Vela West Brom jafntefli

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vela skorar hér jöfnunarmarkið í kvöld.
Vela skorar hér jöfnunarmarkið í kvöld. Nordic Photos / AFP
Carlos Vela var aftur hetja West Brom þegar að liðið gerði 1-1 jafntefli við Stoke á útivelli í kvöld.

Rory Delap hafði komið Stoke yfir með skallamarki af stuttu færi eftir hornspyrnu Jermaine Pennant í upphafi síðari hálfleiks en Vela jafnaði metin skömmu fyrir leikslok.

Markið skoraði Vela, sem er lánsmaður frá Arsenal, af stuttu færi eftir fyrirgjöf Steven Reid frá hægri kantinum. Endursýningar í sjónvarpi virtust hins vegar gefa til kynna að Vela hafi verið rangstæður.

Vela kom inn á sem varamaður á 83. mínútu í kvöld og var búinn að skora aðeins fjórum mínútum síðar.

Hann fékk reyndar frábært tækifæri til að tryggja sínum mönnum öll stigin er hann fékk stungusendingu inn fyrir vörn Stoke en Asmir Begovic, markvörður Stoke, sá við honum.

Vela var einnig hetja West Brom gegn Wolves fyrir rúmri viku er hann kom inn á sem varamaður í síðari hálfleik í leik gegn Wolves. Þá var West Brom einnig undir, 1-0, en hann skoraði jöfnunarmarkið í lok venjulegs leiktíma.

West Brom er nú með 28 stig í nítjánda og næstsíðasta sæti deildarinnar. Tvö önnur lið, Wolves og West Ham, eru einnig með 28 stig en Wigan er á botninum með 27. Það er því útlit fyrir æsispennandi fallbaráttu á lokaspretti tímabilsins.

Stoke er í ellefta sæti deildarinnar með 33 stig og er því aðeins fimm stigum frá fallsæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×